Anna Hildur Hildibrandsdóttir hættir sem framkvæmdastjóri hjá Nordic Music Export (NOMEX) sem er í eigu Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) og systurskrifstofa ÚTÓN á Norðurlöndum.

Í fréttatilkynningu sem NOMEX sendir frá sér í dag segir að Anna Hildur sé á förum til að setja upp kvikmyndaframleiðslufyrirtækið, Tattarrattat, með bresku leikstjórunum Iain Forsyth og Jane Pollard en þau eru þekktust fyrir mynd sína 20.000 Days on Earth með Nick Cave.

„Fyrirtækið okkar verður í Reykjavík og London. Fyrsta verkefnið okkar er í þróunarferli og við munum vinna það að hluta á Íslandi," segir Anna Hildur um nýja fyrirtækið en bætir við að of snemmt sé að segja mikið meira um verkefnið á þessu stigi.

Hóf störf í tónlistargeiranum árið 1998

Anna Hildur stýrði fimm ára prógrammi á vegum NOMEX sem stutt var af Norrænu ráðherranefndinni. Þar þróaði hún meðal annars Nordic Playlist tónlistarvefsíðuna og Ja Ja Ja klúbbakvöldin sem haldin eru í London, Berlin, Vín og Tokíó til að vekja athygli á nýjum norrænum hljómsveitum og tónlistarmönnum.

Undir stjórn Önnu Hildar voru einnig þróaðar viðskiptaferðir til Tókíó og LA auk þess að standa fyrir fræðslu og rannsóknum á útflutningsverðmætum norrænnar tónlistar.

Anna Hildur var fyrsti framkvæmdastjóri ÚTÓN árin 2007-2012 og sem slík tók yfir rekstur Iceland Airwaves árið 2010. Hún hafði áður starfað að vörumerkjaþróun Iceland Airwaves og sem fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar frá 2003-2006.

Anna Hildur hefur verið búsett í Bretlandi í 25 ár en þar starfaði hún sem blaðamaður og þáttagerðarkona um árabil áður en hóf störf í tónlistargeiranum árið 1998 þegar hún var umboðsmaður hljómsveitarinnar Bellatrix.