„Ég dvaldi í höfuðborginni og það sem var eftirminnilegt þaðan var eiginlega bara fátæktin, niðurníðslan, og herinn sem var áberandi, en í landinu er eitt hæsta hlutfall heims af ungbarnadauða og kvenna sem deyja af barnsförum,“ segir Anna Hjartardóttir, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna um Gínea-Conakry sem er eitt af fátækustu löndum í heimi. . Anna er búsett í New York en ferðast mikið vegna vinnu sinnar en Viðskiptablaðið fékk að vita hvaða lönd hafa haft mest áhrif á Önnu í gegnum tíðina.

Anna heimsótti lítið samyrkjubú þar sem ungar konur höfðu tekið sig saman og fengið smálán til að framleiða dýrafóður: „Það var alveg ótrúlegt að sjá hvað þær höfðu gert með nánast enga peninga. Fyrirtækið var farið af stað og þær voru farnar að þjálfa fleira ungt fólk í að hefja sína eigin starfsemi. Það er magnað að verða vitni að því hvað stuðningur við konur í þróunarlöndum getur haft mikil jákvæð margfeldisáhrif á samfélagið í kringum þær.“

Þetta ferðalag var svo sannarlega ferðalag öfganna en eftir Gínea-Conakry fór Anna til Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum: „Á hótelinu var mér boðið upp a Capuchino með gullflögum. Mamma spurði mig réttilega hvort ég gæti ekki fleytt gullinu af og sent það til Gíneu!”

Nánar er spjallað við Önnu um ferðalög hennar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.