Anna Kristín Kristjánsdóttir, viðskiptafræðingur, hefur keypt 10% hlut í auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Samhliða því að eignast hlut í stofunni tekur Anna Kristín sæti í stjórn Hvíta hússins, þar sem hún mun taka þátt í stefnumótun og ráðgjöf. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Anna Kristín starfaði hjá Vodafone í 10 ár, frá 2004 til 2014, fyrst sem forstöðumaður sölu en síðustu fjögur árin sem markaðsstjóri Vodafone. Hún er viðskiptafræðingur að mennt, með sérhæfingu í stjórnun og markaðsfræðum ásamt því sem hún stundaði meistaranám í stefnumótun og frumkvöðlafræðum við Háskóla Íslands og BI viðskiptaháskólann í Noregi.

„Ég hef fylgst með og unnið með Hvíta húsinu um langt skeið. Styrkleikar stofunnar felast í starfsfólkinu, uppsafnaðri reynslu, faglegum vinnubrögðum og fyrirtækjamenningunni sem er einstök. Það eru spennandi tímar framundan og ég hlakka til að vinna með þeim,“ segir Anna Kristín um kaupin.