Breytingar hafa orðið á stjórn leigufélagsins Heimavalla hf. Anna Þórðardóttir og Hildur Árnadóttir hafa verið kjörnar nýjar inn í stjórn félagsins og á sama tíma víkur Magnús P. Örnólfsson úr stjórninni. Aðrir stjórnarmenn sitja áfram en það eru þeir Magnús Magnússon, stjórnarformaður, Halldór Kristjánsson og Ari Edwald. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Heimavellir er leigufélag sem býður leiguíbúðir fyrir einstaklinga og fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land, með áherslu á langtímaleigu. Félagið byggir á gömlum grunni og er rekið í anda sambærilegra leigufélaga sem starfrækt hafa verið víða í Evrópu um áratuga skeið. Stefnt er að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað á fjórða ársfjórðungi þessa árs og er þá gert ráð fyrir að félagið verði með ríflega tvö þúsund leiguíbúðir í rekstri og verður þar með stærsta leigufélag landsins á almennum markaði.

Það er fagnaðarefni að fá þær Hildi og Önnu til liðs við okkur,” segir Magnús Magnússon, stjórnarformaður Heimavalla. „Reynsla þeirra og þekking mun án efa styrkja stjórn félagsins í að leiða þróun leigumarkaðar á Íslandi eins og þekkist í nágrannalöndum okkar þar sem örugg langtímaleiga er valkostur fyrir almenning. Þannig munum við leggja okkar að mörkum við að stuðla að fjölbreyttari, stöðugri og öruggari húsnæðismarkaði hér á landi.”

Hildur Árnadóttir er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og starfar sem ráðgjafi hjá eigin fyrirtæki, Argyron ehf. Hildur var starfsmaður og síðar meðeigandi hjá KPMG 1990-2004, fjármálastjóri og ráðgjafi hjá Bakkavör Group hf. 2004-2014 og forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslandsbanka 2014-2015. Hildur hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og situr nú í stjórn Rekstrarfélagsins Summu hf. og Eldeyjar TLH hf. Þá á hún jafnframt sæti í Endurskoðunaráði og endurskoðunarnefnd HS Orku hf.

Anna Þórðardóttir var meðeigandi hjá KPMG frá 1999 til ársloka 2015 og sat í stjórn félagsins á árunum 2008-2013, en hún hóf störf hjá félaginu 1988. Hún er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og stundaði framhaldsnámi í fjármálafræðum frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. Anna situr í stjórn Íslandsbanka þar sem hún er formaður endurskoðunarnefndar og nefndarmaður í áhættunefnd stjórnar. Þá er hún einnig formaður endurskoðunarnefndar Haga hf. og situr í stjórn Framtíðarsetur Íslands ehf. Anna hefur einnig setið í stjórn Félags löggiltra endurskoðenda.