Bændurnir Anna og Óli við rætur Krikjufells í Grundarfirði voru meðal gestgjafa á Airbnb sem hringdu ferðaþjónusturisann inn í Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Airbnb fór þá óvenjulegu leið að fá gestgjafa frá hverju tímabelti til að hringja dyrabjöllum heima hjá sér til að hringja félagið inn í kauphöllina í stað þess að láta stjórnendur gera það líkt og venja er.

Á vef Airbnb segir að Anna og Óli hafi haft gaman að því að taka á móti gestum á bæinn sem sé við rætur Kirkjufells. Fjallið sé líklega það fjall sem myndað hafi verið oftast hér á landi. Þá gefi það þeim mikið að sjá gleði gesta þegar þeir virða fyrir sér fossa, sauðfé og hesta í næsta nágrenni og minni þau um leið á hve heppni þau eru að búa á svo fallegum stað og geta deilt honum með öðrum.

Það má segja að Kirkjufell sé orðið heimsfrægt en því hefur meðal annars brugðið fyrir í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones og kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty.

Airbnb var skráð á markað í síðustu viku. Hlutabréfaverð félagsins tvöfaldaðist í verði á fyrsta viðskiptadegi. Bréfin fóru úr 68 dollurum á hlut í 144 dollara en standa nú í 128 dollurum á hlut.