Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-3. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sem fram fer 7. mars næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framboði Önnu.   Þar kemur fram að þær samfélagsbreytingar sem eiga sér stað um þessar mundir eru helsta ástæðan fyrir því að Anna hefur ákveðið að sækjast eftir sæti ofarlega á lista Vinstri grænna í komandi kosningum.

„Sjaldan eða aldrei hafa stjórnmál á Íslandi snúist um jafn mikilvæg málefni og nú,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni:

„Tækifæri hafa skapast til þess að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag. Með því að bjóða fram krafta sína vill Anna leggja hugsjónamálum sínum lið. Bregðast þarf við aðkallandi vanda heimila og fyrirtækja í landinu, sem ramba á barmi gjaldþrots, ef ekki verður tekið myndarlega á. En ekki er síður mikilvægt að nýta þau tækifæri sem gefast þegar stokkað er upp á nýtt.

Nú er tækifæri til að skapa samfélag aukins jöfnuðar, kvenfrelsis, lýðræðis, virðingar fyrir umhverfinu og fjölbreyttara atvinnulífs. Að þessum málum vill Anna vinna.   Anna er andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ekki síst vegna fjarlægðar fólks frá því valdi sem tekur mikilvægar ákvarðanir sem varða líf og kjör almennings. Krafa dagsins í dag er aukið lýðræði og aukin áhrif almennings en innganga í ESB væri afdrifaríkt skref í þveröfuga átt.“   Anna er fædd í Reykjavík árið 1952 og er sagnfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt. Hún er einnig myndlistarmenntuð. Hún hefur verið virk í stjórnmálum frá árinu 1982, jafnt í grasrótarstarfi sem ábyrgðarstöðum. Hún sat í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989 og sat á alþingi fyrir Kvennalistann á árunum 1989-1995.

Hún var meðal stofnenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og er nýkjörinn formaður Félags Vinstri grænna á Álftanesi.

Anna er gift Ara Sigurðssyni og eiga þau tvö uppkomin börn, Jóhönnu og Ólaf.