*

laugardagur, 4. apríl 2020
Fólk 7. febrúar 2020 11:35

Anna Regína tekur við sölu á Coca-Cola

Anna Regína Björnsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri nýstofnaðs sölusviðs Coco-Cola á Íslandi.

Ritstjórn
Anna Regína Björnsdóttir hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Coca-Cola á Íslandi en tekur nú við sem framvkæmdastjóri nýs sölusviðs félagsins.
Aðsend mynd

Anna Regína Björnsdóttir hefur tekið við nýju starfi framkvæmdastjóra sölusviðs Coca-Cola á Íslandi, eða Coca-Cola European Partners á Íslandi eins og félagið sem áður hét Vífilfell heitir nú formlega, en hún gegndi áður starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá fyrirtækinu.

„Þetta er skemmtileg áskorun en í störfum mínum hjá Coca-Cola á Íslandi hef ég snert á nær öllum þáttum í rekstri fyrirtækisins. Sú reynsla mun nýtast vel í að byggja upp enn öflugra söluteymi og tryggja enn betri þjónustu og árangursríkara samstarf við viðskiptavini okkar,“ segir Anna Regína.

Anna Regína hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Coca-Cola á Íslandi frá ársbyrjun 2018 en þar áður stýrði hún hagdeild fyrirtækisins. Hún er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hóf starfsferil sinn í orkugeiranum og starfaði hjá Enex og síðar Geysir Green Energy. Árið 2012 gekk hún til liðs við Coca-Cola European Partners á Íslandi (þá Vífilfell) og hefur síðan þá byggt upp víðtæka þekkingu af dagvöru- og veitingamarkaðinum.

„Við gerðum nýverið breytingar á skipuriti fyrirtækisins og höfum nú sameinað ábyrgð á viðskiptasamningum og samstarfi við viðskiptavini undir eitt svið. Með þessari breytingu er Coca-Cola á Íslandi enn betur í stakk búið takast á á við kröfur viðskiptavina um markvisst samstarf og árangur“ segir Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola á Íslandi en undir hið nýja svið heyra viðskipta- og sölustjórar Coca-Cola á Íslandi ásamt sölufólki.

„Anna Regína hefur náð afar góðum árangri við stjórn fjármálasviðsins og hefur víðtæka þekkingu á starfsemi fyrirtækisins og þeim markaði sem við störfum á. Við báðum hana því að leiða hið nýja svið og efla sölustarfið okkar enn frekar.“

Hjá CCEP á Íslandi starfa um 170 starfsmenn og er fyrirtækið markaðs- og sölufyrirtæki á sviði drykkjarvöru. Fyrirtækið starfrækir tvær framleiðslueiningar á Íslandi, í Reykjavík og á Akureyri. Coca Cola European Partners er tekjuhæsta Coca-Cola átöppunarfyrirtæki í heiminum og er skráð á markað í London, Amsterdam, Madrid og New York. Fyrirtækið hefur starfsemi í 13 löndum í Vestur-Evrópu og hefur 23.000 starfsmenn.