Ekkert bendir til þess að lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur lækki í bráð og matsfyrirtæki hafa ekki gert athugasemdir við þau gögn sem þau hafa þegar fengið frá Orkuveitunni.

Þetta segir Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Orkuveitunnar í samtali við Viðskiptablaðið en sem kunnugt er lækkaði Standard & Poor‘s í gær lánshæfismat Landsvirkjunar þannig að lánshæfismat vegna bæði innlendra og erlendra skuldbindinga lækkaði úr BBB- í BB með stöðugar horfur.

„Okkar matsfyrirtæki hafi fengið öll gögn frá okkur og það er ekkert sem bendir til þess að lánshæfismat okkar lækki,“ segir Anna.

„Þeir hafa verið sáttir við það sem þeir hafa fengið frá okkur. Við erum hins vegar háð því að ef eitthvað gerist með ríkissjóð, hingað til höfum við fylgt ríkissjóð í lánshæfismati.“