*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Fólk 7. september 2018 10:05

Anna stýrir ráðgjöf og sérlausnum Advania

Anna Björk Bjarnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Expectus, tekur við ráðgjöf og sérlausnum hjá Advania.

Ritstjórn
Anna Björk Bjarnadóttir hefur auk ýmissa starfa í tæknigeiranum setið í stjórnum Viðskiptaráðs, Sensa og Festu.
Aðsend mynd

Anna Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Hún mun stýra sókn félagsins í ráðgjöf til viðskiptavina um stafræna umbreytingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Félagið segist ætla að „stíga af fullum þunga inn í ráðgjafahlutverkið“. Skipulagi fyrirtækisins hafi verið breytt til að byggja upp nýtt svið undir stjórn Önnu Bjarkar. Á nýja sviðinu verði rúmlega hundrað starfsmenn þar sem áherslan verði lögð á ráðgjöf á sviði stafrænnar stefnu ásamt þróun og þjónustu hinna ýmsu sérlausna Advania.

Anna Björk er sögð hafa víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og áralanga stjórnunarreynslu úr tæknigeiranum. Hún starfaði hjá Símanum í átta ár, þar af fimm í framkvæmdastjórn. Undanfarin ár hefur hún leitt ráðgjafafyrirtækið Expectus. Anna Björk var áður ráðgjafi hjá Capacent, stýrði þjónustusviði TeleDanmark í Noregi og hefur meðal annars setið í stjórnum Viðskiptaráðs, Sensa og Festu.

„Advania er þjónustufyrirtæki og við erum að marka okkur sérstöðu með því að taka stærri skref í ráðgjafahlutverkinu. Anna Björk er gríðarlega öflugur liðsauki fyrir okkur. Hún hefur dýrmæta reynslu og eftir tuttugu ára starf í tæknigeiranum töldum við hana hárréttu manneskjuna til að stýra sókn okkar í ráðgjöf. Við hlökkum til að fá hana til liðs við okkur og leiða nýtt svið,“ er haft eftir Ægi Má Þórissyni, forstjóra Advania á Íslandi.

„Ég er full tilhlökkunar að koma aftur í stórt og ekki síst alþjóðlegt fyrirtæki með metnaðarfull áform. Ég hef lengi haft ástríðu fyrir stafrænni stefnumótun og þeim tækifærum sem felast í þróuninni fyrir íslenskt viðskiptalíf. Ég er sannfærð um að Advania hefur alla burði til vera í fararbroddi á þeim vettvangi,“ segir Anna Björk.

Í framkvæmdastjórn Advania eru nú þau Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Sigrún Ámundadóttir, Sigurður Sæberg Þorsteinsson, Kristinn Eiríksson og Anna Björk Bjarnadóttir ásamt forstjóranum Ægi Má Þórissyni.