Fjöldi þeirra sem eru með réttarstöðu grunaðara í rannsóknum á vegum embættis sérstaks saksóknara eru á annað hundrað. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfestir þetta í samtali við blaðið. Segir í fréttinni að gera megi ráð fyrir að grunuðum fjölgi verulega á næstu mánuðum eftir því sem embættið kemst lengra í rannsóknum sínum á málum sem nú eru á byrjunarstigi.

Embætti sérstaks saksóknara hefur fengið tugi mála til rannsóknar frá því að það var sett á laggirnar í ársbyrjun 2009. Málin koma bæði frá Fjármálaeftirlitinu sem og skilanefndum og slitastjórnum gömlu bankanna. Gríðarlegur fjöldi hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsóknirnar.