Flugvél Icelandair sem flaug til Kína að sækja 16 tonn af lækningarbúnaði er lent á Keflavíkurflugvelli eftir rúmlega 12 tíma flug sem spannaði 9 þúsund kílómetra. Þetta kemur fram á flugvaktarsíðunni Flightradar.

Flugferðin er önnur sinnar tegundar, en fyrsta slíka ferðin var farin fyrir viku síðan. Eftir yfirferð búnaðarins eftir síðustu ferð kom í ljós að hann uppfyllti allur þær kröfur sem gerðar eru til hans.

Um er að ræða Boeing 767 farþegaflugvél, sem fékk sérstakt leyfi flugmálayfirvalda til að hlaða frakt. Í vélinni er 12 manna áhöfn, sem skiptist í sex flugmenn – sem skiptast á að fljúga vélinni – fjóra hlaðmenn, og tvo flugvirkja.

Haft er eftir Ásdísi Ýr Pétursdóttur upplýsingafulltrúa Icelandair í frétt mbl.is um flugferðina nú í hádeginu að stoppað hafi verið í um sex klukkustundir í Kína meðan hlaðið var í vélina, og allt hafi gengið að óskum.

Vélin lagði af stað frá Keflavík í gærmorgun og því er um 30 klukkustunda ferðalag að ræða, sem lauk nú klukkan 15:48 að staðartíma.