Kauphallarviðskipti á árinu bera með sér að fleiri sækja í beina þátttöku í atvinnulífinu en undanfarin ár. Skýringarnar eru vafalaust margvíslegar, mettaður skuldabréfamarkaður, aukin áhættusókn eftir stöðnun undanfarinna ára, og loksins kann varfærinnar bjartsýni vera farið að gæta á ný eftir langt hlé.

Úrvalsvísitalan hækkaði talsvert á árinu, takmörkum háð sem hún er, en gangurinn var skrykkjóttur. Meðaldagsveltan var 837 m.kr., en mest var hún 4,5 milljarðar króna og lægst aðeins 26 m.kr.

Icelandair var í algerum sérflokki meðal félaganna í Kauphöllinni, með 125% hækkun á árinu. Á hinn bóginn voru Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, einnig í sérflokki, bara með öfugum formerkjum. Ekki svo að skilja að þau hafi verið eina félagið, sem þola mátti rysjótta tíð, það gekk á ýmsu hjá þeim fleirum, bæði í stjórnun og rekstri, en einnig hvað varðaði ytri aðstæður og heimsóknir yfirvalda.

Lesa má myndræna umfjöllun um það helsta í Kauphöllinni á nýliðnu ári í tímaritinu Áramótum.