Fiskistofa verður flutt til Akureyrar en eins og VB.is greindi frá verður starfsmönnum ekki gert að flytja norður eins og til stóð. Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir að ákvörðun um flutning liggi ekki fyrir en að þetta sé vissulega jákvætt skref.

Eyþór segir í samtali við RÚV að Fiskistofa sé fyrst og fremst sátt og ánægð með að vera komin með þessa skýra niðurstöðu á hagsmuni starfsmanna, hvernig þeim verði hagað þegar flutningar hefjast á höfuðstöðvum norður.

Aðspurður hvort hann sé sammála starfsmönnum um að þetta sé fullnaðarsigur segir Eyþór að þarna hafi einni af nokkrum óvissum verið eytt. Nú sé kominn grundvöllur til þess að endurbyggja góðan starfsanda og vonandi verði þetta til þess að fólk hætti að hlaupa frá þeim þannig að þetta er mjög jákvætt skref.

Eyþór segir það alveg skýrt hjá ráðherra að það verði ekki horfið frá áformum um að flytja stofnunina en að Fiskistofa verði að fara að fá formlega ákvörðun til þess að hún geti farið að ráða í lausar stöður og byggja stofnunina upp.

Enn er óvíst hvernig starfsemi Fiskistofu verður skipt. Eyþór vonast þó til þess að það verði komin mynd á starfsemina fyrir norðan seint á þessu ári. Hann segir að miðað við að það verði notuð eingöngu starfsmannavelta þá gæti þetta tekið einn til tvo áratugi allt í allt. En hann sér fyrir sér að strax verði starfsstöð með á annan tug starfsmanna, seint á þessu ári.