Greiningardeild Kaupþings banka hefur sent frá sér afkomuspá fyrir annan ársfjórðung sem og árið í heild, en þar kemur fram að greiningardeildin mun halda sig við neðri mörk spár um þróun úrvalsvísitölunnar og gerir nú ráð fyrir að hún standi í 6.500 stigum við lok árs. Í byrjun árs hafði greiningardeildin gert ráð fyrir að úrvalsvísitalan myndi enda í 7.000 stigum.

Þá gerir hún ekki ráð fyrir að miklar sveiflur verði á markaðinum í sumar þar sem yfirleitt sé það eðli markaða að vera rólegir á þessum árstíma.

Háir vextir vinna gegn hækkun hlutabréfa

Um horfurnar á hlutabréfamarkaðinum um þessar mundir segir í spánni: "Háir vextir hér á landi vinna gegn hækkun hlutabréfa, en á móti kemur að verð-kennitölur margra íslenskra félaga eru orðnar ákaflega hagstæðar. Að auki teljum við að verulegur hluti þeirra félaga sem eru með tekjur sínar í erlendum myntum eigi inni leiðréttingu eftir veikingu krónunnar að undanförnu en um það bil 95% tekna rekstrarfélaga í Kauphöllinni koma erlendis frá. Verðkennitölur hlutabréfamarkaða eru víðast hvar orðnar hagstæðar og við teljum að erlendir markaðir muni hækka í haust, en samfylgni íslenska hlutabréfamarkaðarins við erlenda markaði hefur aukist verulega að undanförnu".

Annar ársfjórðungur ágætlega út, að mati greiningardeildarinnar sem gerir ráð fyrir að samanlagður hagnaður félaganna sem afkomuspáin nær til muni nema rétt rúmlega 23 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins, sem er samdráttur um 15,4% frá sama tíma í fyrra.

Væntingar um taprekstur hjá Straumi-Burðarási

"Við spáum því að hagnaður fjármálafyrirtækjanna í spánni lækki um 33% á milli ára og munar þar mestu um væntingar um áætlaðan taprekstur hjá Straumi-Burðarás og Tryggingamiðstöðinni á öðrum ársfjórðungi. Aftur á móti hafa umsvif rekstrarfélaganna aukist til muna og gerum við ráð fyrir verulegri hagnaðaraukningu hjá þeim frá sama tímabili árið 2005," segir greiningardeildin.

Niðursveiflan ekki gengið til baka

Niðursveiflan sem hófst á innlendum hlutabréfamarkaði um miðjan febrúar hefur ekki gengið til baka en niðursveiflan er að miklu leyti til vitnis um aukna næmni íslenska markaðarins fyrir breyttum vindum í alþjóðlegum fjármálum.

"Ísland hefur flutt inn fjármagn á undanförnum árum og því orðið næmt fyrir breytingum á peningamörkuðum sökum aukinnar vogunar," segir greiningardeildin.

Framtíðarhorfurnar eru verulega undir því komnar hvernig erlendum hlutabréfamörkuðum mun reiða af. "Viðsnúningur gæti orður hraður á erlendum hlutabréfamörkuðum eftir að sumarfríum líkur," segir greiningardeildin.