Eimskip hagnaðist um ríflega 3 milljón evrur, andvirði ríflega 466 milljón króna á gengi dagsins, á síðasta ársfjórðungi þegar tekið hefur verið tillit til 1.500 milljón króna sáttargreiðslu vegna samkeppnisbrots. Aðlagaður hagnaður, þar sem sektin hefur verið tekin út fyrir sviga, er ríflega fjórfalt hærri.

Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar. Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 211 milljón evrum og jukust um ríflega 50 milljón evra samanborið við annan ársfjórðung 2020. Sá fjórðungur kom ekki vel út í fyrra í ljósi þeirrar stöðu sem uppi var um heim allan vegna farsóttarinnar.

Aðlagaður kostnaður nam 181 milljónum evra og hækkar um fjórðung milli samanburðartímabila. Skýrist það, að því fram kemur í tilkynningu, af aukningu í kostnaði vegna kaupa á þjónustu flutningsbirgja. Aðlöguð EBITDA nam 29,7 milljón evrum, andvirði 4.440 milljón krónum, og nærri tvöfaldast milli ára. Eiginfjárhlutfall nam 39,7%.

„Ég er mjög ánægður með rekstrarárangur annars ársfjórðungs sem fór fram úr væntingum okkar. Við erum að sjá árangur af mikilli vinnu starfsfólks við mörg umbótaverkefni t.d. tekjustýringu, hagræðingar- og samþættingarverkefni og við að fínstilla framleiðslukerfin okkar. Einnig hafa markaðsaðstæður verið okkur í hag, þrátt fyrir að vera krefjandi,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra félagsins, í tilkynningunni.

Aðlöguð afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir afkomu upp á 90-100 milljónir evra í árslok. Talsverð óvissa hefur verið á flutningsmörkuðum í kjölfar Covid og bil afkomuspárinnar því breiðara en almennt gengur og gerist.