Búist er við að gengið verði frá öðrum hluta láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslendinga eftir kosningar. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi í morgun.

Steingrímur sagði að tímaáætlun í samstarfi stjórnvalda og AGS hefði riðlast í tíð fyrri ríkisstjórnar. Upphaflega hefði verið áætlað að gengið yrði frá ýmsum gögnum til AGS í lok desember. Síðan hefði verið fenginn frestur fram til janúar til að ljúka þeirri vinnu.

„Síðan fór janúarmánuður eins og hann fór," sagði Steingrímur og vísaði þar til stjórnarslitanna og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þegar hann hefði komið í fjármálaráðuneytið 1. febrúar hefði umrædd vinna farið af stað frá grunni.

Upphaflega hefði staðið til að gengið yrði frá öðrum hluta samkomulags stjórnvalda og AGS í febrúar. Síðan hefði það dregist fram til loka mars eða apríl. Nú væri ljóst að það myndi enn dragast um nokkrar vikur.