*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Erlent 24. febrúar 2021 08:06

Annar keppinautur Tesla á markað

Lucid Motors verður skráð á markað í gegnum öfugan samruna við „blank cheque“ félag.

Ritstjórn
Frá frumsýningu Lucid Air árið 2017
epa

Rafbíla-sprotafyrirtækið Lucid Motors hefur náð samkomulagi við „opna tékka“ (e. blank cheque) félagið Chuchill Capital IV um skráningu þess á markað með öfugum samruna. Samningurinn er metinn á 24 milljarða dollara og yrði því stærsti samningur af þessu tagi til þessa. Financial Times segir frá. 

Lucid, sem er í meirihlutaeigu þjóðarsjóðs Sádi Arabíu, mun sameinast Churchill Capital IV, sem sótti 1,8 milljarða dollara í fjármögnunarlotu í júlí. 

Samningurinn felur í sér að Lucid fær fjármagnið sem Churchill Capital hafði safnað ásamt 2,5 milljarða dollara af nýju fjármagni frá hópi fjárfesta, sem inniheldur m.a. þjóðarsjóð Sáda og eignastýringafyrirtækin Blackock og Fidelity.

Fyrsti bílinn á að toppa lúxusbíla Tesla

Um 2.000 manns starfa hjá Lucid sem var stofnað árið 2007 nafninu Atieva. Nýja fjármagnið verður notað til að stækka verksmiðju rafbílaframleiðandans í Arizona. Þar er hafin framleiðsla á Lucid Air, fyrsta bíl fyrirtækisins sem mun kosta 169 þúsund dollara eða um 21,6 milljónir króna. 

Lucid kynnti söluútgáfu Air bílsins síðasta haust, sem það telur toppa lúxusbíla Tesla í drægni, kvartmíluhraða, hleðslutíma og almennri hagkvæmni í raforkunotkun. 

Peter Rawlinson mun starfa áfram sem forstjóri Lucid eftir samrunann en hann er fyrrum stjórnandi hjá Lotus og Tesla. Hann var aðalverkfræðingur við þróun Telsa bílsins Model S. 

„Opinn tékka“ félög í tísku

Hlutabréfaverð Churchill Capital IV hafði hækkaði um nærri 500% í ár eftir að orðrómur um samninginn fór af stað. Gengi Churchill féll þó um 40% í gær eftir að fjárhagsupplýsingar voru birtar eftir lokun markaða á mánudaginn. 

„Opin tékka“ félög, einnig kölluð „SPAC“ (Special-Purpose Acquistion Company) ,hafa verið í sókn undanfarið en eini tilgangur þeirra er safna fjármagni og finna einkafyrirtæki til að fara með á markað. Viðurnefnið „opinn tékki“ stafar af því að fjárfestar fjármagna félögin án þess vita hvers konar rekstur þeir munu enda á að eiga hlut í. SPAC félagið sér svo um að skrá einkafyrirtækið á markað en með þessu er komist hjá hinu hefðbundna ferli frumútboða.