*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Erlent 16. október 2018 09:14

Annar stofnanda Microsoft látinn

Paul Allen, lést í gær 65 ára gamall. Var 27. ríkasti maður heims með verðmæti yfir 3.000 milljarða króna.

Ritstjórn
Paul Allen stofnaði Microsoft með Bill Gates árið 1975 eftir að hafa séð ódýra tölvu á forsíðu tímarits.
epa

Vulcan Inc., fjárfestingarfélag Paul Allen tilkynnti í gær um lát hins 65 ára gamla frumkvöðuls og fjárfestis. Heildareignir hans námu 26,1 milljarði Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 3.032 milljörðum íslenskra króna.

Allen var annar stofnanda Microsoft tölvufyrirtækisins, en þeim Bill Gates er þakkað að hafa komið af stað þeirri byltingu að almenningur hefur aðgang að heimilistölvum með einföldum stýribúnaði.

Gates segir í yfirlýsingu að það brjóti hjarta hans að heyra af dauða eins af sínum elsta og besta vini. „Paul var góður samstarfsmaður og traustur vinur. Einstaklingstölvur myndu ekki vera til án hans.“

Lengi barist við krabbamein

Allen lést úr eitilfrumukrabbameini sem hefur háð honum lengi, en árið 1983 hætti hann sem forstjóri Microsoft vegna sjúkdómsins. Þó hafði hann náð sér í millitíðinni en árið 2009 kom krabbamein upp á ný hjá honum sem hann tilkynnti um fyrir tveimur vikum að hefði snúið aftur enn á ný.

Allen hefur verið þekktur fyrir góðgerðastarf sitt, en m.a. hefur hann gefið 100 milljónir dala til heilarannsókna og 25 milljónir í leitina að lífi úti í geimnum. Paul Gardner Allen var fæddur 21. janúar í Seattle, faðir hans var stjórnandi á háskólabókasafni og móðir hans var kennari.

Hékk í skólanum án gráðu

Allen hitti Gates í Lakeside einkaskólanum í Seattle, þar sem þeir byrjuðu að fikta í tölvum. Síðar hékk Allen við tölvuver Háskólans í Washington ríki, notaði tölvurnar og hjálpaði nemendum og prófessorum.

Loks kom að því að hann var spurður af kennara hvort hann væri í raun nemandi og Allen neyddist til að viðurkenna að svo væri ekki, en var samt leyft að halda áfram þar sem hann væri hjálpfús.

Hann sótti hins vegar nám í Washington State háskólanum en kláraði ekki nám, heldur flutti síðar til Massachussets til að vera nær Gates þegar hann stundaði nám í Harvard háskólanum.

Stofnuðu Microsoft 1975 í kjölfar tímaritsforsíðu

Þeir stofnuðu síðan félagið Micro-Soft í Albuguerque í Nýju Mexíkó árið 1975 eftir að Allen sá Altair tölvu á framsíðu tímaritsins Popular Electronics. Þá áttaði hann sig á að tölvur myndu verða ódýrari og þá þyrfti fólk hugbúnað.

Samkvæmt einni ævisögu var Allen talinn heilinn á bakvið starfsemina meðan Gates sá um markaðssetninguna. Þó Allen hafði hætt hjá fyrirtækinu þar sem hann stýrði rannsóknum og vöruþróun var hann í stjórn þess til ársins 2000.

Þegar hann lést var Allen 27. ríkasti maður heims, en fjárfestingarfélag hans Vulcan vakti athygli fyrir að veðja á fasteignir og geimiðnaðinn.

Keypti listaverk, íþróttafélög og fyrirtæki

Auk þess að gefa stóran hluta af eigum sínum safnaði hann verðmætum listaverkum, þar með talið Pablo Picasso, Claude Monet og Roy Lichtenstein. Hann heimsótti stóran hluta heimsins, þar með talið Reykjavíkurhöfn á stórri lúxussnekkju sinni Octopus.

Paul Allen keypti einnig Ameríska fótboltaliðið Seattle Seahawks árið 1997 sem og hann keypti lítinn hlut í Seattle Sounders, sem spilar knattspyrnu.

Árið 1993 eignaðist hann 80% hlut í Ticketmaster Entertainment fyrir 242 milljónir dala og seldi síðan helminginn af því fyrirtæki til Home Shoppin Network fyrir 209 dali. Einnig keypti hann ráðandi hlut í Charter Communications árið 1998 sem síðar rann inní Time Warner Cable, sem er annað stærsta kapalfyrirtæki Bandaríkjanna.

Hefði tapað milljörðum

Í ævisögu sinni segir Allen frá því að árið 1983 hafi Gates reynt að kaupa sig út úr Microsoft með boði um 5 dali á hlut í félaginu. Það hafi orðið honum til mikillar lukku að Gates hafi svo hafnað móttilboði hans um að selja á 10 dali á hlut. Allen hefði tapað milljörðum ef hann hefði selt á þeim tíma.

Þegar Microsoft var sett á markað árið 1986 var listaverðið svo aftur 21 dalur, en er í dag 107,60 dalir. Tekjur félagsins á síðasta ári námu 110,4 milljörðum dala og markaðsvirði þess nam um 825 milljörðum dala að því er Bloomberg segir frá.