Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir vinnubrögð Dags B. Eggertssonar og annarra fulltrúa meirihluta borgarstjórnar við ráðningu borgarlögmanns vítaverð. „Þetta er skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að ráðningu í opinbert embætti,“ segir Kjartan.

„Illa var staðið að auglýsingu stöðunnar og upplýsingagjöf stórlega ábótavant til þeirra kjörnu fulltrúa, sem tóku endanlega ákvörðun í málinu.“

Aðgangur að upplýsingum hindraður

Kjartan segir að ekki hafi orðið við ábendingum og óskum um bætt vinnubrögð frá kjörnum fulltrúum meðan á ferlinu stóð. Nefnir hann sem dæmi aðgang að upplýsingum án hindrana og að auglýsa stöðuna betur í ljósi þess hversu fáar umsóknir bárust.

„Óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans í þessu máli sem og sambærilegum málum að undanförnu benda til að annarleg sjónarmið ráði þegar ráðið er í æðstu stöður hjá Reykjavíkurborg,“ segir Kjartan en hann segir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að allt ferlið yrði endurskoðað og staðan auglýst að nýju.

„Tillögunni var vísað frá með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina. Á fundinum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks einnig til að ráðningunni yrði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði fengu ekki tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti.

Þrátt fyrir að löng hefð sé fyrir því í borgarráði að hægt sé að fresta afgreiðslu máls um einn fund ef ósk berst um það, var tillagan felld með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.“

Segja starfið eitt það best launaða í borgarkerfinu

Einungis bárust tvær umsóknir um stöðuna, annars vegar frá Ebbu Schram sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var ráðin í stöðuna, og hins vegar frá Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni. Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er athygli vakin á því að svona fáar umsóknir hafi borist um eitt mikilvægasta og best launaða starfið innan borgarkerfisins.

„Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna,“ segir í bókuninni sem bendir einnig á að mörg dæmi séu um að í svona tilvikum sé umsagnarfrestur framlengdur eða stöður auglýstar að nýju.

„[...] eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni eins og um er að ræða í þessu tilviki. Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað óskað eftir því að fá öll gögn málsins afhent, var ekki orðið við því fyrr en í lok þessa fundar þegar málið var tekið á dagskrá.“

Halda áfram að draga úr gagnsæi í ráðningum

Segir í bókuninni að annar borgarráðsfulltrúi flokksins hafi fengið gögn send seint kvöldið áður en án lágmarksupplýsinga um umsækjendur.

„Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær,“ segir jafnframt í bókuninni.

Vísað var frá þeirri tillögu borgaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að endurskoða þurfi allt ferlið og staðan auglýst að nýju, og staðið betur að auglýsingunni. Einnig var vísað frá þeirri tillögu að fresta ráðningunni þangað til fulltrúar í borgarráði hafi fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti.