Eins og komið hefur fram í gögnum frá Hagstofunni hefur  verið mikil fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands. Forstjórar tveggja rútufyrirtækja, töldu þá fjölgun hafa  áhrif á rekstur fyrirtækjanna.

Björg Dan Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Trex, telur sumarið hafa verið „mjög annasamt“ í viðtali við Viðskiptablaðið. „Við erum með áætlunarferðir upp á hálendið og það er meiri umferð þangað. Við höfum sérhæft okkur í að vera með fjallabíla sem komast á þá staði. Það hefur verið svakalega mikil umferð.“ Telur hún að í sumar hafi aðsóknin í ferðir verið talsvert meiri.

Tyrfingur Guðmundsson, einn eigenda og framkvæmdarstjóri rútufyrirtækisins Guðmundar Tyrfingssonar, fann þó ekki jafn mikið fyrir fjölgun ferðamanna. „Hún er ekkert gríðarleg í hópferðunum. Hún er nú mest í bílaleigubílum og hjá einstaklingum“ segir Tyrfingur. „Það er þó alltaf aukning en ekki líkingu við hitt.“

Ekkert í hendi með framtíðina

Aðspurð um þróun til framtíðar þá telur Björg hjá Trex að þau hjá fyrirtækinu eru enn að velta því fyrir sér hvernig framtíðarþróunin verður. „Maður hefur ekkert í hendi“ segir Björg. Hún veltir því þó upp hvort að styrking krónunnar gæti mögulega haft áhrif. Sérstaklega í ljósi  þess að evran og pundið eru að veikjast. Margir ferðamenn komi frá Bretlandi og Evrópu.

Tyrfingur telur framtíðina líka óvissa að vissu leyti. „Það er ekki útlit fyrir neitt annað en það fjölgi meira. Við verðum að horfa á það sem jákvæða þróun að fá fleiri ferðamenn.“