*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 31. ágúst 2021 14:52

Annata í samstarf við norskan bílarisa

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Annata og Microsoft hafa gert langtímasamning við stærsta bílainnflytjanda Noregs.

Ritstjórn
Jóhann Jónsson, forstjóri Annata
Aðsend mynd

Annata og Microsoft hafa gert langtímasamning við Norska bílarisann, Møller Mobility Group með það að leiðarljósi að þróa nýja og nútímalega staðla og stafrænar lausnir fyrir bílaiðnaðinn.

Í fréttatilkynningu sem fyrirtækin sendu frá sér segir að alþjóðlegi bílaiðnaðurinn gangi nú í gegnum miklar breytingar og fjárfestingar á sviði þróunar og rannsókna sem hlaupi á tugum milljarða dala árlega, sem skili sér m.a. í umhverfisvænni, öruggari og snjallari bílum ásamt nýbreytni í flutningatækni.

Samhliða þessari þróun sé þörf á hugbúnaðarlausnum sem styðja við stafræna umbreytingu fyrirtækja og auðvelda innleiðingu nýrra viðskiptamódela. Undanfarin ár hefur Annata lagt gríðarlega áherslu á  þróun eigin skýjalausna fyrir bifreiða- og vinnuvélaiðnaðinn, sem byggja á Microsoft skýjalausnum.

„Møller Mobility Group hefur einsett sér að vera í fararbroddi í þessari stafrænu umbyltingu og er fyrsta skrefið að ganga til langtímasamstarfs við Annata og Microsoft. Þar sem aukin samkeppni, hröð tækniþróun og ný viðskiptamódel skapa þörf fyrir nýjar lausnir, munu fyrirtækin kanna möguleikann á enn frekari þróun stafrænna lausna fyrir bílaiðnaðinn.“

„Starfsfólk Annata vinnur náið með Microsoft og lykilviðskiptavinum, svo sem Möller Mobility Group, til að tryggja að lausnir okkar séu leiðandi á markaði. Skýjalausnir Annata styðja við öra þróun nýrra viðskiptamódela í bíla- og samgönguiðnaðinum, byggja á sveigjanleika og sjálfvirknivæðingu og hafa þær enn og aftur reynst vera fullkomin blanda fyrir metnaðarfyllstu bíla- og samgöngufyrirtækin,“ segir Jóhann Jónsson, forstjóri Annata.

Í tilkynningu Annata segir að mikil viðurkenning felist í vali Möller Mobility Group á fyrirtækinu sem samstarfsaðila á þessari vegferð. Samstarfið sé staðfesting á þeirri nýsköpunar- og þróunarvinnu sem Annata hefur fjárfest í undanfarna tvo áratugi.

Møller Mobility Group mun innleiða stafræna umbreytingaráætlun sína með fjárfestingu upp á nokkur hundruð milljónir norskra króna á næstu árum.

„Þetta samstarf gefur okkur einstakt tækifæri til að flýta fyrir stafrænni umbreytingu á starfsemi okkar. Á sama tíma fáum við að taka þátt í þróun nýrra stafrænna lausna fyrir iðnaðinn,“ segir Petter Hellman, forstjóri Møller Mobility Group.

Undanfarin ár hefur Annata unnið markvisst að uppbyggingu á erlendum mörkuðum, en yfir 95% af tekjum Annata samstæðunnar eru erlendar. Stóraukin áskriftarsala eigin lausna skilaði fyrirtækinu methagnaði árið 2020, eða um 728 milljónir, en „mikill tekjuvöxtur á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2021 gefur vísbendingar um að hagnaður Annata muni aukast enn frekar á árinu“.

Í síðasta mánuði hlaut Annata verðlaun Microsoft Business Apllications í alþjóðlegum úrvalshópi (e. Inner Circle). Um er að ræða sjötta árið í röð sem Annata var valið í alþjóðlega úrvalshópinn sem nær til um 1% samstarfsaðila Microsoft en í þann hóp eru valdir samstarfsaðilar sem skara fram úr og ryðja brautina í lausnaframboði Microsoft um allan heim. Microsoft tilnefndi Annata einnig í úrslitahóp um val á samstarfsaðila á sviði hugbúnaðar fyrir bíla- og tækjaiðnað.