Hugbúnaðarrisinn Microsoft hefur valið íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Annata sem alþjóðlegan samstarfaðila ársins á sviði hugbúnaðar fyrir bíla- og tækjaiðnað, eða Microsoft Automotive Partner of the Year. Fyrirtækið var valið fyrir framúrskarandi árangur í nýsköpun og þróun viðskiptavinalausna byggðum á Microsoft tækni.

„Það er okkur mikill heiður og ánægja að hljóta þessa viðurkenningu frá Microsoft.  Starf­semi Annata byggir á þróun og sölu viðskipta­hug­búnaðar fyr­ir fram­leiðend­ur bíla- og vinnu­véla og fyr­ir­tæki sem sinna dreif­ing­u-, sölu- og þjón­ust­u­starf­semi í sama iðnaði. Annata hefur margra ára reynslu og þekkingu í að þróa lausnir sem byggjast á Azure, Microsoft Dynamics og Microsoft Power Platform“, sagði Jóhann Jónsson, forstjóri  Annata. Hann segir viðurkenninguna vera til marks um þann mikla árangur sem starfsfólk Annata hefur náð í samstarfi við Microsoft.

Annata var valið úr hópi þúsunda samstarfsaðila Microsoft, sem margir hverjir eru á meðal stærstu fyrirtækja heims. Viðurkenningar eru veittar í nokkrum flokkum fyrir árangursríkt samstarf við Microsoft, nýsköpun, aukna ánægju viðskiptavina og ekki síst fyrir að laða að nýja viðskiptavini.

Samhliða viðurkenningunni kynnti Microsoft lausna-hraðal sem Annata hefur þróað í samstarfi við Microsoft fyrir bíla- og tækjaiðnaðinn (Microsoft Automotive Solution Accelerator).
„Það er okkur mikill heiður að sæma Annata titlinum Samstarfsaðili ársins á sviði  bíla- og tækjaiðnaðar,“ sagði Gavriella Schuster, aðstoðarforstjóri, One Commercial Partner, Microsoft. „Þessi fyrirtæki hafa með góðum árangri leitt atvinnugrein sína í nýsköpun og þróun lausna og tekist á við flókin viðfangsefni.Vinna Annata er frábært dæmi um þá yfirburði sem við sjáum eingöngu hjá okkar bestu samstarfsaðilum.“

Annata er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Fyrirtækið frá stofnun lagt áherslu á þróun á lausnum byggðum á Microsoft Dynamics sem síðan hafa fest sig í sessi á alþjóðamarkaði innan bíla- og tækjaiðnaðarins.