Forsætisráðherra hefur í dag skipað tvo fulltrúa í peningastefnunefnd samkvæmt nýju ákvæði í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum.

Þau eru Anne Sibert, Dr. í hagfræði og prófessor við Birkbeck College, University of London og Gylfi Zoega, Dr. í hagfræði og prófessor við Háskóla Íslands.

Formaður peningastefnunefndarinnar er Svein Harald Øygard, Seðlabankastjóri og fulltrúar Seðlabanka Íslands í nefndinni eru auk hans Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningu segir að ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir önnur en tilgreind eru í 2. mgr. 7. gr., ákvörðun bindiskyldu skv. 11. gr. og viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr. sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum Seðlabanka Íslands og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.

Í peningastefnunefnd sitja seðlabankastjóri, sem er formaður, aðstoðarseðlabankastjóri, einn af yfirmönnum bankans á sviði mótunar eða stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem forsætisráðherra skipar.

Anne Sibert er prófessor og deildarstjóri við School of Economics, Mathematics and Statistics í Birbeck College í London. Anne á ennfremur sæti í CEPR (Centre for Economic and Policy Research) stofnuninni. Anne gengdi stöðu hagfræðings hjá bankastjórn bandaríska Seðlabankans í Washington. Rannsóknir hennar hafa fyrst og fremst verið á sviði þjóðhagfræði með sérstaka áherslu á peningahagfræði. Hún hefur veitt fjölmörgum stofnunum ráðgjöf á sviði efnahagsmála og verið aðstoðarritstjóri Economic Journal í Bretlandi. Anne Sibert lauk doktorsprófi í hagfræði frá Carnegie-Mellon háskóalanum í Bandaríkjunum árið 1982.

Gylfi Zoëga lauk cand. oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1987 Hann nam við Columbia-háskólann í Bandaríkjunum.og lauk þaðan meistaraprófi í hagfræði árið 1989, M.Phil prófi 1991 og doktorsprófi árið 1993. Að námi loknu lagði Gylfi stund á rannsóknir og háskólakennslu erlendis. Hann var ráðinn prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og kennir þar bæði í grunn- og framhaldsnámi, einkum þjóðhagfræði og vinnumarkaðshagfræði. Gylfi er skorarformaður í hagfræðiskor og varadeildarforseti við viðskipta- og hagfræðildeild. Auk þess gegnir hann stöðu gestaprófessors við Birkbeck College, University of London þar sem hann starfaði um árabil áður en hann hóf störf við Háskóla Íslands.