Umboðsmaður Alþingis telur að talsverðir annmarkar hafi verið á málsmeðferð, er rektor Háskólans á Hólum var skipaður í embætti af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Rektorinn var skipaður 1.janúar 2012. Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis sem birt var í dag.

Ráðherra tók ekki sjálfstæða ákvörðun um ráðningu rektorsins, heldur tók einungis mark á umsögnum háskólaráðs. Umboðsmaður kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi verið óheimilt að framselja ákvörðunarvaldið til háskólaráðs með þessum hætti, heldur hefði hann átt að leggja sjálfstætt mat á hæfi umsækjenda.

Þrátt fyrir annmarka á ráðningarferlinu telur Umboðsmaður Alþingis ólíklegt að þeir geti leitt til ógildingar skipunarinnar. Það verði þó verkefni dómstóla að skera úr um hugsanlega skaðabótaábyrgð.