Hakkarasamtökin Anonymous, sem eru eins konar lausbyggð regnhlífarsamtök alþjóðlegra tölvuþrjóta og aktívista, hafa nú lýst stríði á hendur ISIS.

Yfirlýsingin var gerð í kjölfar Parísarárásanna, mannskæðrar og samstilltrar hryðjuverkaárásar á föstudaginn síðastliðinn, en ISIS hefur lýst yfir ábyrgð sinni á verknaðinum. 129 manns létust í árásunum, og hundraðir særðust.

Í myndbandi, sem er á frönsku , segir grímuklæddur talsmaður samtakanna að Frakkar séu sterkari en hryðjuverkamennirnir, og muni koma út úr voðaverkunum sterkari og sameinaðri fyrir vikið.

Anonymous stóð einnig fyrir netárás á íslenska vefi í gær, en vefsíðurnar mbl.is og vefur forsætisráðuneytisins urðu fyrir barðinu á hökkurunum. Var tilefnið atlaga að hvalveiðistefnu Íslendinga.