Kvótinn er gefinn út fyrir aðalveiðisvæði ansjósunnar en um tvö aðskilin veiðisvæði er að ræða og veiðiheimildir gefnar út sérstaklega fyrir þau bæði og á misjöfnum tímum innan ársins.

Kvótinn er 26% minni en var á undangenginni vertíð sem þá var 2,7 milljónir tonna. Af þeim kvóta veiddust 2,44 milljónir tonna eða 88% af útgefnum veiðiheimildum. Ansjósan fer að stórum hluta til mjöl- og lýsisvinnslu. Aðalkaupandi afurðanna eru fiskeldisfyrirtæki um heim allan. Hvergi er meira magn mjöls og lýsis framleitt úr einni tegund fiskjar.

Ákvörðun um aflamark var tekið eftir að mælingar á ansjósustofninum fóru fram. Talið er að lífmassi ansjósunnar sé um sjö milljónir tonna, en það er 29% minna en síðasta mat á stofninum hljóðaði upp á í sumar leið.

Aðstæður í hafinu við mælingar í október gáfu til kynna að sjávarhiti færi mjög lækkandi. Stofninn er mjög viðkvæmur fyrir breytingum í hafinu, ekki síst af völdum veðurfyrirbærisins El Nino og áhrifa þess á nýliðun í stofninum. Hefur reglulega þurft að banna veiðar á ansjósu vegna þessa og því er stofnmats og veiðiráðgjafar beðið með nokkurri eftirvæntingu þarna suður frá.