Fjártæknifyrirtækið Ant Group hagnaðist um 3,5 milljarða dollara á fyrri hluta árs og jókst hagnaður þess um 500% á fyrsta ársfjórðungi milli ára. Félagið stefnir á frumútboð (e. IPO). Frá þessu var greint í árshlutauppgjöri Alibaba sem á um þriðjungshlut í Ant Group.

Félagið var metið á um 150 milljarða dollara í hlutafjáraukningu fyrir um tveimur árum en það tilkynnti um frumútboð í síðasta mánuði. Félagið verður tvískráð í Kauphöll Hong Kong og Shanghai. Umfjöllun á vef WSJ.

Útboðið gæti orðið eitt það stærsta í sögunni en Alibaba var skráð á markað fyrir sex árum fyrir 25 milljarða dollara. Ant stefnir á markaðsvirði í kringum 200 milljarða dollara og væri því verðmætara en fjárfestingabankinn Goldaman Sachs.