„Nokia segir þetta besta Pureview-vídeóið hingað til,“ segir hjólagarpurinn Anton Örn Arnarson. Hann leikur aðalhlutverkið í nýju myndbandi sem finnski farsímaframleiðandinn Nokia hefur búið til. Forsvarsmenn Nokia höfðu samband við hann í sumar og mættu síðan tveir Frakkar hingað í íseptember í fyrra með fulla ferðatösku af Nokia-símum til að taka upp myndband af Antoni sýna listir sínar á BMX-hjóli. Anton fór með Frökkunum víða um land í heila viku.

Fyrir þá sem ekki eru í kreðsunni þá er Anton virkur í BMX-hjólasenunni. Hann er bæði með styrktaraðila hér á landi og í Svíþjóð og keppir oft á BMX-hjólum í útlöndum. Þá hefur hann gert mikið af myndböndum sem sýna hann á hjólinu. Myndböndin má sjá á Vimeo-síðu Antons . Anton telur Frakkana frá Nokia hafa séð myndböndin sín og það orðið til þess að þeir leituðu til hans.

Símarnir eru úr nýju Lumia-seríu Nokia og voru þau tekin upp með myndavélasímanum Nokia Lumia 1020, sem er með 41 MP myndavél sem byggir á svokallaðri Pureview-tækni sem Nokia hefur þróað en myndavél símans er með fljótandi linsu. Símarnir voru ekki komnir á markað þegar þetta var og mættu mennirnir hingað frá Frakklandi með frumgerðir símanna. Reyndar ætluðu þeir að koma í júlí. Anton datt hins vegar af hjóli sínu og rifbeinsbrotnaði. Ferð Frakkanna var því frestað fram í september.