Danski skipaflutningarisinn AP Möller-Mærsk frumsýndi kynningarmynd um fyrirtækið við hátíðlega athöfn í gær. Það eitt og sér er vart í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að hver mínúta í myndinni kostaði eina milljón danskra króna, jafnvirði tæpra 22 milljóna íslenskra króna.

Heildarkostnaður við gerð myndarinnar, sem heitir „We are Mærsk“ nam 12 milljónum danskra króna, jafnvirði tæpra 262 milljóna íslenskra króna. Það sem heldur kostnaðinum niðri er að myndin er aðeins um 12 mínútna löng.

Danska viðskiptablaðið Börsen gerir kvikmyndina að umtalsefni, ekki síst fyrir þær sakir að á sama tíma og fyrirtækið ver háum fjárhæðum til myndarinnar þá glími fyrirtækið við taprekstur.

Blaðið hefur eftir Claus V. Hemmingsen, einum af framkvæmdastjórum AP Möller-Mærsk, að kynningarmynd sem þessi sé einsdæmi og ætli fyrirtækið ekki að snúa sér frekar að kvikmyndagerð. Hann bætir við að stjórnendur AP Möller-Mærsk hafi trú á myndinni sem ætlað sé að kynna það betur fyrir viðskiptavinum.

Hinn aldni Mærsk Mc-Kinney Möller kemur fyrir í myndinni. Hann er sonur stofnanda skipaflutningarisans, fyrrverandi forstjóri þess, og fagnar aldarafmæli í júlí á næsta ári.