Lágkolvetnakúrinn hefur nú teygt sig úr mannheimum og inn í heim dýranna, að minnsta kosti í einum dýragarði í Bretlandi. Á vefsíðu skoska blaðsins The Herald er sagt frá Paignton dýragarðinum í Devon í Englandi en þar hefur verið tekin sú ákvörðun að hætta að gefa öpum og apaköttum banana. Er það vegna þess að bananarnir eru of sætir fyrir apana. Auka þeir hættu á tannskemmdum og sykursýki, svo dæmi séu tekin.

Haft er eftir Amy Plowman, starfsmanni dýragarðsins, að þeir ávextir og jurtir sem apar nærist á í náttúrunni séu mun ríkari af trefjum og prótenum en bananarnir. Þeir séu ræktaðir fyrir mannfólk, sem vill jú hafa sína ávexti sæta. Það að gefa öpum banana sé eins og að næra börn á engu öðru en kökum og súkkulaði.

Í stað þess að svipta apana þessum sætindum í einni svipan var magnið smám saman minnkað og hlutfall grænmetis og rótarávaxta aukið. Plowman segir að bananar séu þó ennþá notaðir ef aparnir veikjast. Mjög auðvelt sé að fá þá til að éta meðul ef þeim er stungið í bananabita.