Fjárfestingarhópur undir forystu Apax Partners er nú á góðri leið með að selja bresku stórverslanakeðjuna Somerfield til samkeppnisaðilans Co-operative Group.

Fréttaveita Dow Jones greinir frá þessu.

Orðrómur er um að samningur þess efnis verði undirritaður í byrjun Júlí. Heimildarmönnum ber þó ekki saman um tímasetninguna. Samningaviðræður munu hafa staðið í þó nokkurn tíma.

Fjárfestingarhópurinn sem á Somerfield nú samanstendur af Barclays, auðjöfrinum Róbert Tchenguiz, Kaupþingi og Apax. Kaupverð Somerfield árið 2005, þegar núverandi eigendur keyptu, var 1,1 milljarður sterlingspunda.

Síðan 2005 hafa eigendurnir gert gríðarlegar rekstrarbreytingar. Þegar Somerfield var sett í sölu síðastliðinn febrúar var búist við að 2,5 milljarðar sterlingspunda fengust fyrir keðjuna.

Ekki er búist við svo háu verði nú en talið er að kaupendur hafi boðið undir 2 milljarða sterlingspunda. Sérfræðingar segja nú 1,5 milljarð sterlingspunda vera raunhæft verð.