Hlutabréfa-apinn Matu er einn af þeim sem mun taka þátt í Noregsmeistaramótinu í hlutabréfaviðskiptum sem hefst á mánudaginn. Það er norski viðskiptafjölmiðillinn e24.no sem stendur á bak við keppnina og hefur ákveðið að bjóða Matu til leiks.

Í frétt e24.no um málið er sagt frá því Matu, sem býr í dýragarðinum í Kristiansand, er einn af þeim sem talinn er sigurstranglegastur í keppninni. Hann er fenginn til leiks til að sannreyna fullyrðingar hagfræðingsins Burton Malkiel sem sagði frá því í bók sinni, A Random Walk Down Wall Street, að api sem myndi velja hlutabréf í pílukasti gæti staðið sig jafn vel og sérfræðingar í hlutabréfaviðskiptum. Því ber þó að halda til haga að Matu notast ekki við pílukast í sínum hlutabréfaviðskiptum heldur trékubba.