Fjárfestingafélagið Apollo Management hefur lagt fram yfirtökutilboð í bandarísku verslunarkeðjuna Linens 'N Things sem er skráð í kauphöllinni í New York, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Íslenska fjárfestingafélagið Lagerinn efh., sem er að hluta til í eigu Jákups Jakobsen, er talið eiga um 12% hlut í félaginu.

Apollo býður 28 dollara á hlut eða 1,3 milljarð dollara fyrir félagið sem jafngildir um 78 milljörðum króna. Yfirtökutilboðið er 6,1% hærra en síðustu viðskipti með bréf Linens 'N Things sem voru upp á 26,40 dollara.

Þeir Jákup Jakobsen, forstjóri Rúmfatalagersins og Jón Scheving Thorsteinsson ráðgjafi hans voru staddir í New York í gær þegar náðist í þá. Að sögn Jóns Schevings er erfitt að segja til um hver viðbrögð þeirra verði við yfirtökutilboðinu enda hafi menn nokkra daga til að hugsa sinn gang. Jón benti á að eigendur Lagersins hefðu meiri þekkingu í þessum verslunarrekstri en aðrir hluthafar og því gætu þeir haft aðra sýn en þeir. "Það hefur sýnt sig að þetta voru góð kaup en þetta er bara fyrsta tilboð," sagði Jón Scheving.

Í september síðastliðnum var greint frá því að Lagerinn efh., fyrirtæki sem tengist eigendum Rúmfatalagersins, hefði eignast 9,9% hlut í Linens N Things. Lagerinn hafði þá keypt um 4,5 milljónir hluta í Linen 'N Things í samvinnu við TF Holding P/F og höfðu félögin keypt á þriggja mánaða tímabili fyrir 115 milljónir dala eða ríflega sjö milljarða króna á meðalgenginu 25,58 Bandaríkjadalir á hlut. Kaupin hófust 24. ágúst og þá var gengi bréfa Linens 'N Things 23,62 dalir á hlut. Áður hafði Lagerinn eignast bréf í félaginu þannig að ekki liggur nákvæmlega fyrir hver meðalkaupgengið er og talið er að heildarhlutur félagsins sé í kringum 12%.

Gera má ráð fyrir að gengishagnaður Lagersins sé á milli einn og tveir milljarðar króna af stöðu sinni.