Hugbúnaðarrisinn Microsoft hefur veitt fyrirtækinu App Dynamic gullvottun. Vottunin heitir Gold Partner Status og er hún veitt fyrir sérþekkingu á hugbúnaðarþróun í umhverfi Microsoft.

Fram kemur í tilkynningu að með vottuninni komist App Dynamic í hóp þeirra fyrirtækja sem búa yfir hvað mestri hæfni og sérþekkingu á Microsoft hugbúnaði og eru í nánu samstarfi við Microsoft.

Fyrirtækið, sem stofnað var árið 2009, sérhæfir sig í smíði hugbúnaðar fyrir Windows, Mac og iOS og starfa þar 12 manns. Áður hefur App Dynamic fengið silfurvottun á sama sviði. Á meðal hugbúnaðar fyrirtækisins er AirServer, sem netmiðillinn TUAW valdi í fyrra eitt af tíu bestu smáforritum síðasta árs. Með forritinu, sem er til fyrir Windows-stýrikerfi Microsoft og stýrikerfi frá Apple, er hægt að streyma efni frá símum og spjaldtölvum í gegnum tölvur sem tengdar eru við sjónvarp eða myndvarpa. Hugmyndasmiðurinn heitir Pratik Kumar og hefur hann í gegnum tíðina þróað fjölda forrita sem hafa slegið í gegn, s.s. í netverslun Apple, iTunes.