Íslenska fyrirtækið App Dynamic komst á lista Financial Times yfir þau þúsund fyrirtæki í Evrópu sem hafa náð mestum tekjuvexti á árabilinu frá 2013 til ársins 2016. Er fyrirtækið í ár eina íslenska fyrirtækið sem náði á listann, en í ár er fyrirtækið nr. 623 á listanum.

Í fyrra voru 3 íslensk fyrirtæki á listanum, App Dynamic var þá þó hæðst eða í sæti nr. 262. Í fréttatilkynningu frá félaginu hefur það á síðustu þremur árum einnig verið í efstu þremur sætunum á listanum Fast50 frá Deloitte.

„Vöxtur okkar yfir síðustu ár helst í hendur við stanslausa framþróun, nýsköpun og gríðarlega mikla vinnu, sem gerir App Dynamic fremst í flokki á okkar sviði og á heimsmælikvarða í „Screen-projection Technology“ eða mynd-speglun á milli skjáa,“ segir Unnar Ari Baldvinsson en hann sér um markaðsmál ásamt grafískri hönnun hjá félaginu.

„Okkar helstu áherslur eru markaðir erlendis en þar erum við í kappi við stærri fyrirtæki heimsins, þar á meðal Apple, Microsoft og Google. Þessi viðurkenning er skiptir okkur miklu máli og sýnir að öll okkar erfiðis vinna hefur skilað sér bæði í tekjum og þróun fyrirtækisins.“

Sömdu við Intel

Segir hann félagið hafa mörg járn í eldinum um þessar mundir og mörg spennandi verkefni framundan og nefnir þar á meðal samstarf við Intel.

Listi FT nær til 31 Evrópulanda, en helst eru það tæknifyrirtæki sem ná inn á listann, en 155 fyrirtækjanna eru í þeim geira. Hins vegar er matarsendingafyrirtæki efst á listanum annað árið í röð, þó að hið breska Deliveroo hafi komið í stað hins þýska HelloFresh.

Af stórborgum Evrópu eru flest fyrirtækjanna í London, eða 74, meðan 62 eru í París og 25 í Mílan. Það fyrirtæki sem fjölgaði starfsmönnum sínum mest er einmitt staðsett í London, en það er tæknifyrirtækið Endava sem bætti við sig fleiri en 2.000 starfsmönnum. Lægsti meðaltekjuvöxturinn í  í ár nam 34,6%, en á síðasta ári nam hann 16,1%.