Eigendur Hello Sunshine, fjölmiðlafyrirtækis stofnað af Resse Witherspoon árið 2016, horfa nú til sölu á fyrirtækinu sem er metið á allt að milljarð dala, eða um 123 milljarða króna. Apple er meðal þeirra aðila sem hafa áhuga á að kaupa fyrirtækið, að því er kemur fram í frétt WSJ .

Hello Sunshine stendur að baki HBO þáttunum Big Little Lies og Apple+ þáttunum The Morning Show sem Witherspoon og Jennifer Aniston fara með aðalhlutverkin í. Fyrirtækið gæti orðið eftirsótt meðal annarra stórra streymisveitna á borð við Amazon Prime, Netflix eða Warner Media.

Ásamt framleiðslu á sjónvarpsþáttum er Hello Sunshine með vinsælan bókaklúbb, Reese‘s Book Club, sem mælir mánaðarlega með bókum þar sem konur eru aðalsögupersónur. Reese Witherspoon hefur notað samfélagsmiðla, líkt og Instagram, til að auglýsa bækurnar. Hello Sunshine fær þóknun fyrir kaup meðlima klúbbsins.

Sjá einnig: Fyrirtæki Jessicu Alba á markað

Hello Sunshine er í eigu Witherspoon, eiginmanns hennar Jim Toth og Seth Rodsky. AT&T á einnig hlut í fyrirtækinu eftir kaup fjarskiptafélagsins á Otter Media árið 2018. Emerson Collective, góðgerðasamtök Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, fer einnig með hlut í Hello Sunshine. Emerson Collective er einnig meðal stærstu hluthafa íslenska lækningavörufyrirtækisins Kerecis.

Ekki kemur fram í umfjöllun WSJ hvað Witherspoon á stóran hluta í Hello Sunshine. Fyrirtækið, sem gefur ekki upp fjárhag sinn, gerir ráð fyrir að skila hagnaði í fyrsta sinn í ár samkvæmt grein Time .