Bandaríski tölvuframleiðandinn Apple kynnti í upphafi vikunnar uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung fjárhagárs síns en hagnaður félagsins var langt umfram spár greiningaraðila.

Samkvæmt uppgjörinu nam hagnaður Apple á tímabilinu um 7,9 Bandaríkjadölum á hvern hlut en tekjur félagsins á tímabilinu voru um 28,6 milljarðar dala. Greiningaraðilar á Wall Street höfðu gert ráð fyrir 5,8 dölum í hagnað á hvern hlut og tekjum upp á tæpa 25 milljarða dala.

Á bandaríska fjármálavefnum Fool.com er fjallað um uppgjör Apple og þar segir greinarhöfundur að aðeins Steve Jobs [stofnandi Apple] gæti gert greiningaraðila á Wall Street svo vandræðalega.

Vörur Apple hafa notið gífurlegra vinsælda. iPhone 4 farsíminn selst eins og heitar lummur þrátt fyrir að von sé á nýrri gerð, iPhone 5, nú í haust en Apple hefur selt um 20 milljón síma það sem af er núverandi fjárhagsári félagsins.

Vestanhafs eru menn farnir að nota orðið iEmpire en sem fyrr segir er uppgjör þriðja ársfjórðungs langt fram úr björtustu spám. Þannig jókst sala á vörum félagsins um 14% á milli ára á meðan tekjur jukust um 16%. Sem fyrr segir námu tekjur félagsins um 28,6 milljörðum dala á tímabilinu en þar af námu tekjur vegna tölvubúnaðar aðeins um 5 milljörðum (iPad er ekki talinn með sem tölvubúnaður).

Á meðan Android, í samstarfi við Samsung, og Motorola hafa reynt hvað þeir geta að setja á markað snjallsíma og spjaldtölvur, seldi Apple 9,5 milljónir iPad-a.

Lausafé Apple er nú um 75 milljarðar dala og segir greinarhöfundur Fool.com að veldi félagsins jafnist á við lítið ríki í Karabíska hafinu. Að sama skapi hlýtur það að reynast erfitt að starfa hjá samkeppnisaðila Apple, s.s. Nokia, því þrátt fyrir nokkuð framboð af vörum sem ætlað er að keppa við vörur Apple þá virðast neytendur út um allan heim frekar vilja það sem greinarhöfundur kallar iCandy, eða sælgætið frá Apple, og færa stjórnendum og hluthöfum Apple því vænan hagnað.