Alls seldust um fimm milljón snallúr í heiminum á öðrum ársfjórðungi og voru þrír fjórðu þessara úra framleiddir af Apple, að því er segir í nýrri skýrslu Strategy Analytics, en vefsíðan Mobile Enterprise segir frá.

Alls jókst sala snjallúra um 457% á öðrum fjórðungi frá sama tímabili í fyrra og seldust fleiri snjallúr á öðrum fjórðungi 2015 en allt árið í fyrra. Þá seldust 4,6 milljónir snjallúra, en á öðrum fjórðungi í ár nam salan 5,3 milljónum.

Gert er ráð fyrir því í skýrslunni að Apple hafi selt fjórar milljónir eintaka af snjallúri sínu í fjórðungnum. Samsung seldu um 400.000 eintök af sínu snjallúri og er með 8% markaðshlutdeild og er í öðru sæti á eftir Apple.