Tæknirisinn Apple hefur gefið það út að verja eigi um 45 milljörðum dala í arðgreiðslur og kaup á eigin hlutabréfum næstu þrjú ár og er það umtalsverður hluti þeirra 100 milljarða sem fyrirtækið situr á í lausafé. Meirihluti þessa fjár, eða um 60 milljarðar dala, situr hins vegar á reikningum utan Bandaríkjanna og er til kominn vegna sölu á Apple-vörum í öðrum ríkjum. Apple hefur hins vegar sagt að þetta fé verði ekki flutt til Bandaríkjanna þar til Bandaríkjaþing auðveldar þarlendum fyrirtækjum að flytja slíkan hagnað heim. Þessum sextíu milljörðum verður því ekki komið til hluthafanna fyrr en það gerist.

Eins og reglurnar eru núna þá þurfa fyrirtæki eins og Apple að greiða 35% tekjuskatt af peningum sem þau flytja heim frá útlöndum þrátt fyrir að hafa greitt af þeim skatt í því landi sem hagnaðurinn varð til í. Apple hefur, ásamt fleiri stórum tæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum, lagt hart að bandarískum þingmönnum að breyta þessum reglum, til dæmis með því að lækka skatthlutfallið sem lagt er á heimflutt fé.

Þessi afstaða Apple var ítrekuð í gær, þegar Apple sagði að við arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum yrði aðeins notað það fé sem fyrirtækið hefur á reiðum höndum í Bandaríkjunum. Erlenda féð mun áfram sitja á erlendum bankabókum þar til reglurnar breytast. Alls er talið að um 1.000 milljarðar dala séu í eigu bandarískra fyrirtækja erlendis í svipaðri stöðu og Apple er.