Apple tilkynnti nýlega að félagið vildi bæta í framleiðslu á iPhone símum. Félagið hefur beðið birgja sína um að framleiða allt að 90 milljónir af næstu kynslóð iPhone síma í ár.

Netrisinn hefur á undanförnum árum framleitt um 75 milljónir eintaka í fyrstu framleiðslulotu fyrir útgáfu nýrrar kynslóðar.

Því er um 20% aukningu að ræða, sem gefur til kynna að fyrirtækið vænti mikillar eftirspurnar eftir snjallsímunum, m.a. þar sem þetta verður aðeins önnur kynslóð símans sem styður 5G.

Þá tilkynnti Apple einnig í liðinni viku nýjan fylgihlut með nýjustu útgáfu iPhone með áfestanlegt og þráðlaust hleðslutæki fyrir iPhone 12 línuna líkt og Viðskiptablaðið sagði frá.