Framkvæmdastjóri og stofnandi Tesla Motors, Elon Musk, segir í viðtali við BBC að það sé "opið leyndarmál" að tæknijötuninn Apple vinni nú að þróun snjallbíls.

Musk spáði því í viðtalinu að bifreiðar sem keyrðu sig ekki sjálfar yrðu brátt tímaskekkja. Því sé augljóst að Apple starfi nú að þróun eigin bifreiðar.

„Það er frekar erfitt að fela eitthvað þegar þú ræður fleiri en þúsund verkfræðinga til að vinna við það,“ sagði Musk í viðtalinu.

Síðustu tvö ár hefur verið bitist um verkfræðinga í Kísildal, og Apple og Faraday Future - dularfullur keppinautur Tesla Motors - hafa bitist um að ráða verkfræðinga frá herbúðum Musk.

Wall Street Journal greindi svo frá því nýlega að blaðið hefði heimildir fyrir því að Apple ynni að svokölluðum Apple-bíl.

Elon segist þó óhræddur við innkomu Apple á markaðinn. „Það mun bara stækka markaðinn,“ segir frumkvöðullinn. „Tesla mun halda áfram að starfa við að framleiða besta rafbílinn, en á sama tíma munum við einnig vera öðrum bílaframleiðendum leiðarljós í framleiðslu rafbíla.“