Verksmiðju sem notuð var til að framleiða allt að 41.000 eftirlíkingar af iPhone símunum vinsælu frá Apple hefur verið lokað. Verksmiðjan var staðsett í Kína og voru níu manns handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu.

Talið er að hundruðir manns hafi starfað í verksmiðjunni og var eftirlíkingunum pakkað í kassa frá Apple. Voru framleiddar eftirlíkingar fyrir um 19 milljónir dollara.

Verksmiðjan var rekin af hjónum og var staðsett rétt fyrir utan höfuðborgina Peking. Kínversk yfirvöld fengu að vita af verksmiðjunni hjá bandarískum eftirlitsaðilum sem höfðu haldlagt einhverja af símunum þar í landi.

Kína hefur undanfarna áratugi verið þekkt fyrir framleiðslu á hinum ýmsu eftirlíkingum en undanfarin misseri hafa stjórnvöld skorið upp herör gegn slíkri framleiðslu. Hafa þau samþykkt að vinna með bandarískum yfirvöldum til að stemma stigu við þeim mikla útflutningi á eftirlíkingum sem endar í Bandaríkjunum.