Apple hefur lagt áform um framleiðslu á sjónvarpi á hilluna. Þetta segir í frétt Wall Street Journal.

Apple vann við þróun á sjónvarpi í mörg ár sem átti að verða mjög frábrugðið þeim sjónvörpum sem fyrir eru á markaðnum. Að sögn dagblaðsins töldu stjórnendur Apple að þeir væru ekki með nægilega góða vöru í höndunum til að geta skákað Samsung, sem er leiðandi á sjónvarpsmarkaðanum.

Í mörg ár hafa fjárfestar og viðskiptavinir Apple beðið eftir sjónvarpinu. Það minnkaði ekki eftirvæntinguna þegar í ljós kom, að  Steve Jobs hefði sagt ævisöguritara sínum að þeir hjá Apple hefðu loks fundið út hvernig ætti að smíða sjónvarp með einföldum stjórntækjum.

Síðan þá hefur Netflix og Hulu búið til stjórnbúnað sem er einfaldur í notkun og þar með minnkað þörfina á slíkum búnaði í sjónvarpinu sjálfu, að sögn Wall Street Journal.

Icahn segir að sjónvarpið komi

Fjárfestirinn Carl Icahn, sem á stóran hlut í Apple, telur hins vegar að sjónvarpið komi á markað á næsta ári. Það verði í tveimur stærðum, 55 tommum og 65 tommum og Apple muni selja 10 milljónir á árinu 2015, og það muni skila 15 milljörðum í tekjur.

Í gær sagði Icahn að hlutabréf Apple ætti að vera 240 dalir á hlut, en ekki 130 dalir á hlut. Icahn sendi bréf til Tim Cook í gær þar sem hann lét í ljós þá skoðun sína að hlutabréfaverð í fyrirtækinu ætti að vera 240 dalir á hlut, en ekki 130 dalir á hlut líkt og nú er. Birti hann bréf sitt í færslu á Twitter.

Í bréfinu hvatti hann jafnframt til þess að Apple yki við endurkaupaáætlun sína á eigin bréfum. Fyrirtækið hefur að vísu nýlega kynnt slík áform og ætlar að kaupa eigin bréf fyrir um 70 milljarða dala, en Icahn vill hins vegar umfangsmeiri endurkaupaáætlun.