Bandaríska markaðsrannsóknafyrirtækið Millward Brown Optimor kynnti fyrir skömmu árlegan lista sinn yfir verðmætustu vörumerki heims, BrandZ. Apple trónir nú á toppnum sem verðmætasta vörumerkið og er verðmæti vörumerkisins nú metið á um 153,3 milljarða Bandaríkjadala, jafngildi tæplega 17 þúsund milljarða íslenskra króna. Fyrir ári var verðmæti Apple vörumerkisins um 83,3 milljarðar dala og hefur það því vaxið um 84%, eða nær tvöfaldast, á einu ári.

verðmætustu vörumerki heims
verðmætustu vörumerki heims

Athygli vekur hversu mikla yfirburði Apple hefur yfir önnur fyrirtæki á listanum. Í öðru sæti situr það vörumerki sem undanfarin ár hefur verið talið það verðmætasta af sérfræðingum Millward Brown Optimor, Google. Verðmæti vörumerkis Google er metið á 111,5 milljarða dali og því munar um 42 milljörðum á þessum tveimur vörumerkjum. Spurningin er hvort það eigi að koma á óvart í ljósi þess að Apple hefur á undanförnum árum haslað sér völl á farsímamarkaði og verið leiðandi í þróun upplýsingatæknimarkaðarins. Þá hafa vinsældir afurða fyrirtækisins verið með eindæmum á undanförnum árum og nú er sá varla maður með mönnum sem ekki á einhvers konar apparat frá Apple í vopnabúri sínu. Í þriðja sæti situr síðan IBM en vörumerki þessa aldna risa upplýsingatækninnar er metið á 100,9 milljarða dala.

Raunar er það svo að þegar rennt er yfir listann yfir 100 verðmætustu vörumerkin er það áberandi hvernig upplýsingatæknifyrirtæki virðast vera að taka yfir heiminn ef þannig má að orði komast. Það er ekki lengur svo að Coca-Cola og McDonald’s beri höfuð og herðar yfir önnur vörumerki eins og var fyrr á árum þegar listar af þessu tagi voru settir saman. Þá var það reyndar ekki Millward Brown Optimor sem setti listana saman enda leit fyrsti BrandZ-listinn dagsins ljós árið 2006. Í fimm efstu sætunum á þessum merka lista er að finna fjögur upplýsingatæknifyrirtæki og í tíu efstu sætunum eru sex til sjö, eftir því hvort General Electric telst til upplýsingatæknifyrirtækja enda má vissulega færa rök fyrir því að GE sé upplýsingatæknifyrirtæki þótt það framleiði líka ísskápa. Það eru aðeins áðurnefnd McDonald’s (sem er í 4. sæti) og Coca Cola (6. sæti) auk tóbaksframleiðandans Marlboro (8. sæti) sem tekst að troða sér inn á lista tíu verðmætustu vörumerkjanna og má því segja að topplistinn samanstandi í megindráttum af upplýsingatækni og óhollustu.