Bandaríska tæknifyrirtækið Apple hefur beðið helstu birgja sína að meta kostnaðinn við að flytja milli 15 til 30% af framleiðslugetu sinni frá Kína til annarra landa Suðaustur Asíu.

Er beiðnin tilkomin vegna viðvarandi tolladeilna Bandaríkjanna og Kína, en samkvæmt Reuters munu áætlanir um flutninginn ekki breytast þó að deilurnar leysist. Hefur fyrirtækið ákveðið að það sé of mikil, og vaxandi, áhætta að vera jafnháð framleiðslu í Kína og raun ber vitni.

Birgjarnir sem um er rætt eru framleiðslufyrirtækin Foxconn, Pegatron Corp og Winstron Corp sem öll framleiða íhluti í iPhone, Quanta Computer Inc, sem framleiðir MacBook, iPad framleiðandinn Compal Electronics Inc, og AirPods framleiðendurnir Inventec Corp, Luxshare-ICT og Goertek.

Asíulöndin Indland, Víetnam, Indónesía og Malasía eru, auk Mexíkó, meðal þeirra sem helst koma til greina að taka við framleiðslunni.