Tæknifyrirtækið Apple hefur orðið fyrst bandaríska fyrirtækið til að vera verðmetið á yfir 2 billjónir Bandaríkjadala, það er 2.000 milljarða dala, sem samsvarar um 271.440 milljörðum íslenskra króna.

Einungis rétt rúmlega tvö ár er síðan Apple fór yfir þúsund milljarða dala markið, eins og Viðskiptablaðið sagði frá 2. ágúst 2018 , en félagið hafði farið yfir 700 milljarða dala í nóvemberlok 2014 . Á dögunum birti WSJ ítarlega umfjöllun um það hvernig hinn 59 ára forstjóri félagsins Tim Cook, sem tók við af Steve Jobs árið 2011, hefði sett mark sitt á félagið með allt öðrum stjórnunarstíl.

Apple er reyndar ekki fyrsta fyrirtækið í heiminum til að fara yfir 2 billjóna markið, það var sádi arabíska olíufélagið Aramco þegar þetta fyrrum ríkisolíufélag landsins fór í hlutafjárútboð með 1,5% eignarhluta í félaginu. En síðan þá hefur gengi bréfanna lækkað og þar með heildarvirði félagsins farið í 1,8 billjónir dala og fór Apple fram úr því sem verðmætasta félag í heimi í lok júlímánaðar.

Tvöföldun frá panikkinu í mars

Gengi bréfa Apple hefur hækkað um meira en 50% á árinu að því er BBC greinir frá, þrátt fyrir að útbreiðsla kórónuveirufaraldursins hefði neytt það til að loka fullt af verslunum. Félagið er jafnframt sagt hafa orðið fyrir miklum stjórnmálaþrýstingi vegna mikilla tengsla sinna í Kína.

Verðmæti félagsins hefur í raun tvöfaldast frá því að það fór lægst í marsmánuði þegar óttinn vegna Covid 19 hafði hvað mestu áhrifin á hlutabréfamarkaði. Þar hjálpaði til að í lok júlí birti félagið mjög sterkt ársfjórðungsuppgjör sem sýndi 59,7 milljarða dala tekjur.

Næstverðmætasta bandaríska fyrirtækið er Amazon, sem verðmetið er á 1,7 billjónir dala, en Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun september 2018 að verðmæti félagsins hefði farið yfir 1000 milljarða dala markið, stuttu eftir Apple.