Apple rauf 3 billjóna dala múrinn stuttlega í gær, fyrst allra skráðra félaga í heimi, þegar bréf þess náðu tæpum 183 dölum á hlut og heildarmarkaðsvirði fór yfir 3 þúsund milljarða dala, ígildi tæplega 400 þúsund milljarða íslenskra króna.

Tæknirisinn varð fyrsta skráða félag til að rjúfa 1 billjónar dala múrinn fyrir aðeins rúmum þremur árum síðan, í ágúst 2018, og var kominn aftur undir það eftir um 30% lækkun í mars 2020 eftir að heimsfaraldurinn skall á, en hefur síðan þá ríflega þrefaldast í verði.

Tekjur Apple námu ígildi um 48 billjóna íslenskra króna á síðasta rekstrarári og jukust um þriðjung milli ára, og hagnaður nam 12,4 billjónum. Til samanburðar nema heildarútgjöld íslenska ríkisins samkvæmt fjárlögum 1,1 billjón í ár.

Sem kunnugt er hefur hlutabréfaverð um allan heim hækkað verulega síðan faraldurinn skall á og seðlabankar og ríkisstjórnir á vesturlöndum réðust í víðtækar og umfangsmiklar örvunaraðgerðir.

Bandaríska hlutabréfavísitalan S&P500 hækkaði um 27% í fyrra, meðal annars þökk sé 41% hækkun Apple á árinu, en aðrir tæknirisar á borð við Microsoft, Alphabet móðurfélag Google, Tesla, og skjákortsframleiðandann Nvidia lögðu þar einnig hönd á plóg, að því er fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal .

Hér heima hækkaði úrvalsvísitalan enn meira, um 33%, sem þó var lægra en tvö af hverjum þremur félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar, hvar óvegin meðalávöxtun nam hátt í 50%.