SMS-skilaboð eru langt frá því að vera ný af nálinni en tæknirisinn Apple hyggst gerbreyta því hvernig við höfum samskipti við okkar nánustu.

Apple fékk nýlega einkaleyfi fyrir nýrri hugmynd sem fyrirtækið hefur verið að þróa sem gengur út á að gera smáskilaboð þægilegri og sjálfvirkari.

Hugmyndin gengur út á það að hægt sé að tengja sendingu á smáskilaboðum við ýmis atriði á borð við tíma, veður og staðsetningu. Einstaklingur gæti þá ákveðið undir hvaða kringumstæðum síminn myndi senda skilaboð og hægt væri að tengja það við t.d. dagatal eða smáforrit sem fylgjast með veðrinu.

Í einkaleyfinu er nefnt dæmi: Það er rigning úti og þú vilt hitta vin þinn í almenningsgarðinum. Þú gætir þá látið símann senda vininum skilaboð þegar hættir að rigna.

Önnur dæmi eru nefnd, til dæmis væri hægt að senda skilaboð til móttakanda þegar hann eða hún mætir í matvöruverslunina svo það berist á sem bestum tíma.

Fjölmargir aðrir möguleikar standa til boða og verður athyglisvert að sjá hvort Apple bjóði upp á þessa byltingu í einhverjum af næstu iPhone farsímum sínum. Hér má lesa meira um málið.