Tölvu- og tónlistarrisinn Apple hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa hækkað verð á sönglögum og hljómplötur söngkonunnar Whitney Houston í iTunes netversluninni eftir að fréttir bárust af andláti hennar um helgina. Er fyrirtækinu gefið að sök að ætla að hagnast á andlátinu.

Sem dæmi má nefna að safnplatan Ultimate Collection, sem kom út árið 2007, hækkaði í iTunes úr þremur bandaríkjadölum í tæpa átta dali á aðeins þremur mínútum.

Ekki er þó gefið að Apple sjálft beri ábyrgð á verðhækkuninni, en samkvæmt sumum fréttum var það útgefandinn Sony Music sem hækkaði verðið. Hvernig sem því líður er gert ráð fyrir því að hljómplötur og lög Houston muni toppa alla vinsælda- og sölulista í þessari viku.