Bandaríski tæknirisinn Apple hefur hætt netsölu á vörum sínum til Rússlands vegna óstöðugs gengis rússneska gjaldmiðilsins. BBC News greinir frá þessu.

Fyrirtækið hefur þannig hætt sölu á iPhone, iPad og öðrum vörum sínum í landinu eftir að rúblan hríðlækkaði í verði í gær. Hefur hún misst 20% af verðgildi sínu í þessari viku, þrátt fyrir róttæka ákvörðun Seðlabanka Rússlands um að hækka stýrivexti úr 10,5% í 17%.

Gengi rúblunnar heldur áfram að lækka og nú í morgun hafði það farið niður um 5%. Kostar einn bandaríkjadollari nú 71 rúblu.

Apple hækkaði verð í Rússlandi í síðasta mánuði um 20% þar sem lækkandi gengi gjaldmiðilsins olli því að vörur fyrirtækisins fengust ódýrari þar í landi en annars staðar í Evrópu.